Innskráning í Karellen

ÞÚ ERT HUGRAKKARI EN ÞIG GRUNAR,

SNJALLARI EN ÞÚ HELDUR

OG STERKARI EN ÞÚ SÝNIST

Í námskrá Yls er unnið út frá ákveðnum hornsteinum þ.e. lífsleikni, málrækt, stærðfræði og heilsu. Inn í þessa fjóra þætti fléttast námssvið Aðalnámskrár leikskóla; læsi, heilbrigði og vellíðan, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, sjálfbærni og sköpun.

Í daglegu starfi er lögð mikil áhersla á lífsleikni. Lífsleikni tekur á alhliða þroska, færni til samskipta, rökrænnar tjáningar og að bera virðingu fyrir umhverfi sínu. Markmiðið er að börnin verði sjálfstæðir einstaklingar og öðlist trú á eigin getu.

Hugmyndafræðin á bak við námsefnið Lífsleikni í leikskóla byggir á verkum eftirfarandi fræðimanna: Loris Malaguzzi, Howard Gardner, Daniel Goleman og William Damon en einnig er litið til Mannræktarstefnunnar.

Hugmyndafræði Loris Malaguzzi beinist að trú á möguleika einstaklingsins. Rannsóknir barna og uppgötvanir eru mikilvægar og nauðsynlegt að þeim sé sýnd virðing. Í kenningu Howards Gardner um fjölþáttagreind er talað um átta greindir sem hver einstaklingur býr yfir. Börnin fá því þjálfun á ólíkum sviðum í verkefnum sínum. Í bók Daniels Goleman, Tilfinningagreind, kemur skýrt fram að góð tilfinningagreind hjálpi til við öll mannleg samskipti og því þurfi að leggja rækt við hana allt frá fæðingu. William Damon hefur skrifað mikið um siðferðisþroska barna og gert rannsóknir sem benda til þess að börn séu færari en haldið hefur verið í að leysa siðferðisleg vandamál. Hann styður það eindregið að siðferðiskennd barna sé örvuð allt frá frumbernsku. Að lokum má nefna Mannræktarstefnuna, The Council for Global Education, sem leitast við að gera börn bæði góð og fróð og þaðan kemur hugmyndin um dygðakennsluna.

Námsleiðir í leikskóla eru fjölbreyttar en námið byggir mikið á leik og sköpun. Leikurinn er alltaf aðalnámsleiðin og sú sem lögð er mest áhersla á. Í gegnum leikinn öðlast börn reynslu, auka við þekkingu sína og læra að eiga samskipi hvert við annað og ráða fram úr ágreiningsefnum. Samhliða leiknum gefast mörg tækifæri til náms í gegnum daglegt starf.

Sköpun er stór hluti af leikskólastarfinu og fléttast inn í flest verkefni. Í daglegu starfi er unnið með myndlist, tónlist og önnur listform eftir því sem við á. Lögð er áhersla á að börnin fái tækifæri til að prófa sig áfram, gera tilraunir, þjálfa upp færni og efla sjálfstraust. Ekki má gleyma leiknum sem skapandi námsleið, í gegnum hann geta börn prófað sig áfram og skapað ævintýraheima.

namskraylur2021-2022.pdf

© 2016 - 2023 Karellen